Skráð þann admin | júní - 30 - 2014 | Slökkt á athugasemdum við Hátíðar ræða formanns íslendingafélagsins
Þetta á að vera stutt ræða! sagði ég við föður minn, er ég tilkynnti honum að
það væri hefð í Noregi að faðir brúðarinnar héldi ræðu í brúðkaupum í Noregi. 
Sú ræða varði í 30 mínútur. 
Ég ætla ekki að tala svo lengi. 
Ég gæti eflaust talað mjög lengi, sérstaklega þar sem mikið hefur verið um að 
vera í ár. 
200 ára afmæli stjórnarskrárinnar í Noregi, 70 ára afmæli lýðveldisins á Íslandi 
og ekki síst 90 ára afmæli Íslendingafélagsins í Osló síðastliðið haust sem haldið 
var uppá með pompi og prakt. 
Hugsið ykkur, lýðveldi Íslands er einungis 70 ára en Íslendingafélagið hér í Osló 
er 90 ára gamalt. 
Það eru óteljandi atburðir og uppákomur sem félagið hefur staðið fyrir á 
þessum 90 árum og ekki verður tölu komið á þann fjölda fólks sem lagt hefur 
hönd á plóg á þeim tíma. Bæði sem meðlimir í stjórn félagsins, nefndum eða 
unnið annað sjálfboðaliðastarf. Eins og t.d hún Ingibjörg okkar í Ískórnum, hún 
bauð fram báða drengina sína sem sjálfboðaliða í pylsusölunni sem verður á 
eftir. 
Ég sjálf er búin að vera meðlimur í félaginu síðustu fimmtán ár en þar af síðustu 
tvö ár sem stjórnarmeðlimur. 
Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu oft ég hef fengið spurninguna: 
„Hvað fæ ég fyrir að vera meðlimur í Íslendingafélaginu ?“... 
Þetta er mjög góð spurning en svarið við henni er ekki einfalt. En það sem að 
fólk almennt fær er að félagið heldur uppi ákveðnum samkomum og er 
samfélag okkar allra íslendinga hér í Osló og nágrenni. 
Án félagsmanna er ekkert félag. Þá eru engir sjálfboðaliðar, engar nefndir og 
þar af leiðandi engin stjórn. Ekkert þorrablót, jólaball eða skipulögð þjóðhátíð í 
Osló. 
Þannig að ég vil frekar segja „Spurðu ekki hvað félagið getur gert fyrir þig, 
heldur hvað þú getur gert fyrir félagið!“ 
Og það sem þú getur gert fyrir félagið er að gerast meðlimur! Þess vegna 
verður boðið upp á skráningu og borgun félagsgjalds hér úti við hliðina á 
pylsusölunni okkar á eftir skrúðgönguna. Ég er alveg viss um að mörg ykkar sem hér sitja hafi á þessum langa tíma sem
að félagið hefur verið starfandi, einhverntíma lagt hönd á plóginn til að efla
félagið og halda uppi félagstarfinu okkur öllum til góða og ég vil þess vegna 
nota tækifærið á meðan ég stend hér fyrir hönd Íslendingafélagsins í Osló þakka 
ykkur kærlega fyrir.

Comments are closed.